Ferðir & önnur verkefni
Ferðir eru mikilvægur hluti af starfi FC Sækó. Markmiðið er að fara erlendis að jafnaði annað hvert ár til að heimsækja sambærileg verkefni, spila vináttuleiki og efla tengsl. Ferðirnar styrkja líka heilsu og sjálfstraust þátttakenda — fyrir marga sem glíma við andleg veikindi getur það verið stórt skref að fara út fyrir þægindarammann.
Langtímamarkmið félagsins er að halda alþjóðlegt mót í geðveikum fótbolta á Íslandi
Skotlandsförin 2014: Þegar draumaliðið varð til
Fyrsta stóra ævintýri FC Sækó erlendis var Skotlandsförin haustið 2014. Á BSÍ stóð hópurinn klár, í bláum íslenskum landsliðsbúningum — og spennan var áþreifanleg. Helgi Valur Ásgeirsson (leikmaður nr. 11 í ferðinni) lýsir stemningunni svona:
„Mér varð hugsað til Draumaliðsins (Dream Team) … hóps sem ætlaði að sýna að hver fastur punktur og hver rútína er sigur í baráttunni við geðsjúkdóm.“
Leiðin út: Frá hugmynd að veruleika
Hugmyndin að ferðinni kviknaði þegar Bergþór G. Böðvarsson heyrði af skosku fótboltaverkefni á vegum Caledonia Clubhouse í Falkirk. Eftir langa skipulagningu, styrkaleit og undirbúning komst ferðin loksins á koppinn. KSÍ lagði til landsliðsbúninga og hópurinn fékk einnig utanyfirbúninga, svo heildarbragur væri á ferðalaginu.
Fyrir marga í hópnum var þetta í fyrsta skipti sem þeir fóru í millilandaflug. Eins og Helgi Valur lýsti því, þá var þetta tækifæri til að breytast úr því að vera „notandi“ yfir í að vera „íþróttamaður“.

Líf og fjör í Glasgow
Dvölin í Skotlandi var eftirminnileg, og ekki alveg án drama! Strax á fyrsta degi á farfuglaheimilinu í Glasgow fór brunabjallan í gang og tveir slökkviliðsbílar mættu á svæðið. Sökudólgurinn? Liðsmaður í Sækó sem hafði sprautað svo miklum svitalyktareyði inni á herbergi að reykskynjarinn fór í kerfi. Glasgow stóð á haus í 30 mínútur en allir lærðu sína lexíu!
Hópurinn nýtti tímann vel, kíkti í Primark, heimsótti Caledonia Clubhouse og fór á Celtic Park þar sem þeir sáu stórlið Celtic vinna 1-0 sigur.
Sigur á stóra sviðinu
Keppnin sjálf var hápunkturinn:
- Fyrri leikurinn: Fór fram í Glasgow. Skotarnir voru sterkir og unnu 5-2, en Sækó-liðar nýttu leikinn til að slípa taktíkina.
- Seinni leikurinn: Þessi leikur gleymist seint. Hann var spilaður á aðalleikvangi Falkirk FC, velli sem tekur 9.000 manns í sæti. Með nýja taktík (þéttari vörn þar sem Helgi Valur tók stöðu miðvarðar) gersigraði FC Sækó heimamenn 10-3!
Meira en bara sigur
Þótt sigurinn á vellinum hafi verið sætur, var hinn raunverulegi sigur félagslegur. John, forsvarsmaður Skotanna, sagði að fyrir sína menn væri þetta „Life changing event“. Margir leikmenn beggja liða höfðu átt undir högg að sækja vegna einangrunar, en á fótboltavellinum voru allir sigurvegarar.
Eins og Helgi Valur sagði að ferðinni lokinni:
„Við vorum allir sigurvegarar. Saman deildum við sögum, sigrum og ósigrum og eitt augnablik rættust draumar sem við flestir töldum dauðvona. Áfram draumaliðið FC Sækó!“

Nottingham 2016: Á enskri grundu
Eftir velgengnina í Skotlandi tveimur árum áður var stefnan sett á England. Í október 2016 hélt 23 manna hópur, þar á meðal til Nottingham.
Hápunktur ferðarinnar var vinarleikur gegn liði á vegum Notts County, en þar kynntust leikmenn svipuðu úrræði og FC Sækó er rekið eftir.
Auk þess að spila sjálfir fengu Sækó-liðar að upplifa stemninguna á alvöru enskum deildarleik þegar Notts County bauð hópnum á leik gegn Crewe Alexandra.Manchester og Old Trafford: Ferðin var ekki bara bundin við Nottingham því hópurinn lagði leið sína til Manchester og skoðaði „Leikhús draumanna“ – heimavöll Manchester United, Old Trafford.
Ferðin var fjármögnuð með mikilli vinnu og samstöðu, þar á meðal tóku leikmenn og bakhjarlar þátt í Reykjavíkurmaraþoninu til að safna styrkjum fyrir verkefninu.



Bergen 2018: keppnis- og kynnisferð til Noregs
Vikuna 13.–18. maí 2018 fór FC Sækó í keppnis- og kynnisferð til Bergen í Noregi. Alls fóru 25 liðsmenn (6 konur og 19 karlar) auk tveggja starfsmanna frá Hlutverkasetri.
Í Bergen er starfandi sambærilegt fótboltaverkefni. Á ferðinni:
- voru spilaðir tveir leikir,
- æft á æfingasvæði þeirra,
- og byggð upp tengsl sem styrkja starfið til framtíðar.
Skotlandsförin 2024: Aftur á ferð eftir hlé
Eftir langa bið var loksins komið að því: í apríl 2024 fór FC Sækó aftur til Skotlands í keppnis- og kynnisferð. Næsta ferð eftir fyrri ár hafði dregist meðal annars vegna COVID-19 faraldursins, en nú var draumurinn orðinn að veruleika – að hittast á ný, spila fótbolta, heimsækja úrræði og styrkja tengsl.
Ferðin var bæði íþróttaferð og félagslegt verkefni: að skapa góðar stundir, efla samheldni og gefa félagsmönnum tækifæri til að upplifa nýtt umhverfi, nýja menningu og nýja vini – í anda þess sem FC Sækó stendur fyrir.
Sterkt samstarf og góðir leiðsögumenn
Stór þáttur í því að ferðin gekk svona vel var Marc Boal, “Íslandsvinur” og tengiliður í gegnum verkefnið sitt Lava Cup. Hann átti stóran þátt í skipulagningu ferðarinnar og var liðinu innan handar í einu og öllu.
„Hann er forsprakki þess að þetta allt átti sér stað og var okkur innan handar í einu og öllu,“ sagði Anton Magnússon, aðstoðarþjálfari FC Sækó.
Leikirnir: Falkirk, Destiny United og Celtic
Liðið flaug út og fékk stuttan tíma til að ná sér niður áður en farið var í leikina. Þrátt fyrir flugþreytu var stemmingin frábær – og eins og oft áður skipti mestu að vera saman, spila og njóta.
Í ferðinni var hópnum skipt í tvennt svo fleiri gætu tekið þátt:
- Leikir við Falkirk
- Leikir við Destiny United (7 á móti 7), þar sem hugmyndafræðin er svipuð og hjá FC Sækó – fótbolti sem leið til virkni, stuðnings og samfélags.
„Þetta gekk ansi brösuglega fyrstu leikina enda flugþreytan búin að keyra menn í kaf. En strákarnir voru bara glaðir og ánægðir að fá svona ferð,“ sagði Anton.

Gestgjafarnir í Falkirk tóku einnig einstaklega vel á móti liðinu og sýndu hlýju og virðingu – meðal annars með því að gefa liðinu treyjur og ýmsa muni.
Síðar í ferðinni fór hópurinn til Glasgow, heimsótti Hampden Park (þjóðarleikvang Skota) og mætti svo Celtic á Stepford Sports Centre vellinum. Þar fóru leikirnir betur en í upphafi ferðar – en úrslitin voru alltaf aukaatriði.
Heimsókn í úrræði: fræðsla og samtal um geðheilbrigði
Ferðin snerist ekki bara um fótbolta. Daginn eftir leikina í Falkirk heimsótti FC Sækó Falkirk Mental Health Association, þar sem sjálfboðaliðar reka öflugt starf fyrir fólk sem glímir við geðrænar áskoranir. Þar hélt Ian Dickinson, forstöðumaður, fróðlegt erindi og skapaðist gott samtal.
„Þessi ferð var ekki bara hugsuð sem keppnisferð heldur einnig sem menningar- og fræðsluferð,“ sagði Anton.
„Þeim þótti mjög fróðlegt að vita hvernig við Íslendingar tökum á þessum málum – og það var yndislegt að sjá hversu mikinn þátt Sækó-liðar tóku í umræðunni.“
Meira en bara fótbolti
Það sem situr eftir er samheldnin, tengslin og upplifunin. Fyrir marga er það stórt skref að fara út fyrir þægindarammann – en í hópnum verður slíkt skref léttara. Ferðin sannaði aftur að fótbolti getur verið brú: milli landa, milli hópa og milli fólks.
„Aðalmálið var að búa til góðar stundir fyrir okkar félagsmenn, gefa þeim tækifæri til að mynda tengsl og njóta lífsins,“ sagði Anton.

Dream Euro Cup 2024: Íslenska landsliðið í Róm
Stærsta mót sem FC Sækó hefur tekið þátt í!
Í september 2024 hélt 12 manna hópur frá FC Sækó til Rómar til að taka þátt í Dream Euro Cup 2024, fyrsta Evrópumeistaramótinu í futsal fyrir fólk í geðheilbrigðisaðstæðum. Mótið fór fram í stórri og sögufrægri íþróttahöll, Palazzetto dello Sport (PalaTiziano), þar sem liðin spiluðu í umgjörð sem minnti á „alvöru landsleik“: áhorfendur í kringum völlinn, dómarar, þjóðsöngvar og mikill leikdagapúls. Fyrir marga var þetta ótrúleg upplifun – bæði spennandi og krefjandi – og líka stórt skref út fyrir þægindarammann.
Lið frá 12 þjóðum og ógleymanleg stemning
Á mótinu voru lið frá Ítalíu (gestgjafar), Ungverjalandi, Tékklandi, Króatíu, Hollandi, Þýskalandi, Eistlandi, Grikklandi, Englandi, Finnlandi, Noregi og Íslandi. Skipt var í riðla og FC Sækó lenti í riðli með Þýskalandi, Grikklandi og Eistlandi. Leikirnir voru hraðir, háværir og spennandi – og að taka þátt í þessu, í þessari stærð og umgjörð, var mikilvæg staðfesting á því hvað starfið okkar getur orðið stórt.
Öll liðin gistu á sama stað og ferðuðust saman í rútum á leikstað. Þessi „mótabúða-stemning“ hjálpaði mikið til við að byggja upp tengsl milli landa – það myndaðist strax félagsskapur, virðing og samstaða þvert á tungumál og menningu.
Ferðin var meira en fótbolti
Þótt futsal-leikirnir hafi verið kjarninn, var ferðin líka félags- og menningarferð. Við náðum að gera skemmtilega hluti utan vallar, til dæmis að fara í leiðsögn um Róm. En mikilvægast var kannski að upplifa hvernig svona ferð getur haft áhrif á líðan: að vera partur af liði, vakna á morgnana með skýrt verkefni, mæta á stað með öðrum og finna að maður tilheyrir – þetta eru hlutir sem skipta gríðarlega miklu í endurhæfingu og bata.
Ferðin var líka tækifæri til að styrkja vináttu sem hefur myndast í gegnum árin. Við spiluðum meðal annars æfingaleik við vini okkar frá Noregi, Psykiatrialliansen, sem FC Sækó heimsótti árið 2018 – og síðan þá hefur skapast sterkt samband milli hópanna.
Allir leikirnir voru streymdir beint og það er enn hægt að horfa á upptökur.
Horfa hér: https://www.youtube.com/live/IkJe0Y5lgj8?si=qD7etS3f2SD5-Ae5

Hvað lærðum við – og hvað er næst?
Dream Euro Cup 2024 var frábrugðið mörgum eldri ferðum okkar: þar var spilað til verðlauna, í stórum sal, með takmarkaðan hóp (9 leikmenn og 3 starfsmenn hjá mörgum liðum). Fyrri ferðir FC Sækó hafa oft verið meira í anda félagsins – að stór hópur fari saman og allir fái að taka þátt, spila og styðja hver annan. En jafnvel með öðru fyrirkomulagi var ferðin ómetanleg en við kynntumst fleiri liðum, styrktum tengsl í Evrópu og opnuðum dyr að mögulegum framtíðarverkefnum. Nú er til dæmis verið að skoða mót í Austurríki næsta sumar þar sem fleiri lið sem við kynntumst í Róm munu vera með.
Árið 2024 var óvenju viðburðaríkt hjá FC Sækó – fleiri æfingatímar, fjölgun liðsmanna og í fyrsta skipti tvær erlendar ferðir á sama ári. Það var ekki endilega planið, heldur bar þetta svona við – en það sýnir líka hversu mikið starfið hefur stækkað og hvað tækifærin eru orðin mörg.

