Dream Euro Cup 2024: Íslenska landsliðið í Róm
Stærsta mót sem FC Sækó hefur tekið þátt í!
Í september 2024 hélt 12 manna hópur frá FC Sækó til Rómar til að taka þátt í Dream Euro Cup 2024, fyrsta Evrópumeistaramótinu í futsal fyrir fólk í geðheilbrigðisaðstæðum. Mótið fór fram í stórri og sögufrægri íþróttahöll, Palazzetto dello Sport (PalaTiziano), þar sem liðin spiluðu í umgjörð sem minnti á „alvöru landsleik“: áhorfendur í kringum völlinn, dómarar, þjóðsöngvar og mikill leikdagapúls. Fyrir marga var þetta ótrúleg upplifun – bæði spennandi og krefjandi – og líka stórt skref út fyrir þægindarammann.
Lið frá 12 þjóðum og ógleymanleg stemning
Á mótinu voru lið frá Ítalíu (gestgjafar), Ungverjalandi, Tékklandi, Króatíu, Hollandi, Þýskalandi, Eistlandi, Grikklandi, Englandi, Finnlandi, Noregi og Íslandi. Skipt var í riðla og FC Sækó lenti í riðli með Þýskalandi, Grikklandi og Eistlandi. Leikirnir voru hraðir, háværir og spennandi – og að taka þátt í þessu, í þessari stærð og umgjörð, var mikilvæg staðfesting á því hvað starfið okkar getur orðið stórt.
Öll liðin gistu á sama stað og ferðuðust saman í rútum á leikstað. Þessi „mótabúða-stemning“ hjálpaði mikið til við að byggja upp tengsl milli landa – það myndaðist strax félagsskapur, virðing og samstaða þvert á tungumál og menningu.
Ferðin var meira en fótbolti
Þótt futsal-leikirnir hafi verið kjarninn, var ferðin líka félags- og menningarferð. Við náðum að gera skemmtilega hluti utan vallar, til dæmis að fara í leiðsögn um Róm. En mikilvægast var kannski að upplifa hvernig svona ferð getur haft áhrif á líðan: að vera partur af liði, vakna á morgnana með skýrt verkefni, mæta á stað með öðrum og finna að maður tilheyrir – þetta eru hlutir sem skipta gríðarlega miklu í endurhæfingu og bata.
Ferðin var líka tækifæri til að styrkja vináttu sem hefur myndast í gegnum árin. Við spiluðum meðal annars æfingaleik við vini okkar frá Noregi, Psykiatrialliansen, sem FC Sækó heimsótti árið 2018 – og síðan þá hefur skapast sterkt samband milli hópanna.
Allir leikirnir voru streymdir beint og það er enn hægt að horfa á upptökur.
Horfa hér: https://www.youtube.com/live/IkJe0Y5lgj8?si=qD7etS3f2SD5-Ae5

Hvað lærðum við – og hvað er næst?
Dream Euro Cup 2024 var frábrugðið mörgum eldri ferðum okkar: þar var spilað til verðlauna, í stórum sal, með takmarkaðan hóp (9 leikmenn og 3 starfsmenn hjá mörgum liðum). Fyrri ferðir FC Sækó hafa oft verið meira í anda félagsins – að stór hópur fari saman og allir fái að taka þátt, spila og styðja hver annan. En jafnvel með öðru fyrirkomulagi var ferðin ómetanleg en við kynntumst fleiri liðum, styrktum tengsl í Evrópu og opnuðum dyr að mögulegum framtíðarverkefnum. Nú er til dæmis verið að skoða mót í Austurríki næsta sumar þar sem fleiri lið sem við kynntumst í Róm munu vera með.
Árið 2024 var óvenju viðburðaríkt hjá FC Sækó – fleiri æfingatímar, fjölgun liðsmanna og í fyrsta skipti tvær erlendar ferðir á sama ári. Það var ekki endilega planið, heldur bar þetta svona við – en það sýnir líka hversu mikið starfið hefur stækkað og hvað tækifærin eru orðin mörg.

