Reynslusögur

Draumaliðið F.C. Sækó 

 

Hópmynd af draumaliðinu F.C. Sækó

Hópmynd af draumaliðinu F.C. Sækó

Er ég mæti á BSÍ blasir við mér falleg sjón. 20 karlmenn klæddir í bláar treyjur merktar íslenska landsliðinu. Mér verður hugsað til „Dream Team“ (Draumaliðið). Ekki bandaríska körfuknattleiksliðið sem skartaði Magic Johnson, Larry Bird og Michael Jordan. Það sem flaug upp í hug mér er næntís bíómynd með öðrum Michael í aðalhlutverki. Michael Keaton, þar sem hann og hópur geðsjúklinga sleppa út af geðdeild til að horfa á íþróttaleik. En þessi hópur, sem ég ber augum, laumaðist ekki burt. Við erum á leiðinni til Skotlands þar sem við munum fara á fótboltaleik hjá hinu sögufræga liði Celtic. Megin tilgangur ferðarinn er þó að keppa í fótbolta.

 Við röltum inn í rútuna. Ég sest aftast. Einhver segir „Eru ekki vinsælu krakkarnir alltaf aftast?“ Ég svara: „Allavega var það þannig í skólaferðalögum í gamla daga“ og átta mig á að þarna er rótgróin félagsmótun á ferð. Bergþór sest við hliðina á mér aftast. Bergþór er fulltrúi notenda á geðsviði Landspítalans. Honum hefur tekist að gera geðveiki sína að atvinnu. 

NSN hópurinn

Ég kynntist Bergþóri þegar ég var meðlimur í NSN hópnum. NSN stendur fyrir notandi spyr notanda en aðal hluterk hópsins er að ljá notendum rödd í meðferð sinni. Margir vita ekki hvað notandi stendur fyrir en það er orð sem þykir mannúðlegra en geðsjúklingur, aumingi eða vistmaður. Notandi vísar einungis til manneskju sem hefur not af þjónustu og í þessu tilfelli er átt við geðheilbrigðisþjónustu.

 Það er hugur í mér fyrir ferðinna og ég segi við Bergþór: „Ég ætla sko að taka á Skotunum“. Hann svarar: „Ætlarðu að æfa þig í að skjóta á markið“ og snýr vísvitandi útúr. Bergþór segir mér að við séum búnir að spila fótbolta í þrjú ár. Ég spyr hann hvernig það atvikaðist. „Þetta byrjaði náttúrulega allt útaf NSN,“ segir Bergþór. „Nú?“ segi ég.

Nokkrir úr liðinu á fótboltavellinum

Fótboltalið stofnað

Eitt af hlutverkum NSN hópsins er að tala við starfsmenn þjónustukjarna til að finn leiðir til að þjónusta notendur betur. Í einni skýrslu NSN hópsins kemur fram að góð leið til þess að virkja notendur sé að finna áhugamál starfsmanna, með því geti starfsmaður notað ástríðu sína til að fá notandan með sér. Einn starfsmaður hafði brennandi áhuga á fótbolta og vildi endilega fá heimilismenn með sér. Bergþóri datt því í hug að halda reglulegar fótboltaæfingar í samstarfi við Hlutverkasetrið og geðsvið Landspítalans. Fótboltaliðið okkar er því samansafn af fólki frá Laugarásvegi (endurhæfingarheimili fyrir ungt fólk með geðsjúkdóma), Bríettartún (Þjónustukjarni fyrir geðfatlaða) og Hlutverkasetrið (félagsmiðstöð og endurhæfing fyrir geðfatlaða).

Góður félagsskapur og stöðugleiki

Ég og annar strákur í rútunni deilum ánægju okkar yfir því að hafa þennan möguleika að geta æft fótbolta reglulega. Eftir mína maníu fylgdi mikið þunglyndi og því fylgdi skömm og lítil sjálfstrú. Nú er ég íþróttamaður! Ég mæti á æfingu einu sinni á viku og eftir nokkra klukkutíma flýg ég til Skotlands. Á sínum tíma var ég viss um að ég myndi aldrei gera neitt skemmtilegt. Aldrei fara til útlanda. Hver fastur punktur og hver rútína er sigur í baráttunni við geðsjúkdóm. Sjúkdómur sem einkennist oft af einangrun og óreglu. Í „boltanum“ fáum við félagsskap og stöðugleika.

Á flugstöðinni sé ég glampa í augum flestra. Þessi glampi sem segir: „Ég er lifandi, ég hef von“. Flestir okkar í F.C. Sækó höfum einhvern tímann á lífsleiðinni litið í spegil og starað inn í tóm sálar okkar óttaslegnir um að þessi glampi, sem við flest lifum fyrir, væri glataður að eilífu.          

Í Skotlandi

Adam var ekki lengi í Paradís og F.C. Sækó var ekki lengi á Euro Hostel á Jamaika Street fyrr en harmurinn skall á. Fyrsta áfallið voru herbergin. Herbergin sem áttu að vera þriggja manna kom í ljós að voru fjögurra manna. Í herbergjunum voru tvær afskaplega óþægilegar stálkojur. Klósettið var eins og best væri boðið upp á í síberísku fangelsi. Vaskurinn fyrir utan klósettið og tveir kranar. Talan tveir virðist í hávegum höfð því einnig voru tveir lyftuhnappar til að kalla á lyftuna sem rúmaði aðeins 4 farþega.

En að lokum náðum við að finna tvær innstungur inn á herberginu og aðlögunin virtist ætla að hafast. En rétt er við höfðum stungið GSM símum í hleðslu byrjaði Hostelið að nötra reykskynjurum og brunabjöllum sem glumdu um allt hótelið. Gestum Euro Hostel var vísað út fyrir dyr og vaknaði strax grunur um að einn geðsjúklingurinn hefði kveikt sér í sígarettu inni á herbergi. Tveir slökkviliðsbílar komu aðsvífandi með ljósin flassandi. Hálfnakið fólkið sem hafði verið smalað saman brosti út í annað. Að lokum fannst sökudólgurinn. Einn liðsmaður F.C. Sækó hagði mislíkað svo ólyktin inn á herberginu sínu að hann beitti svitalyktareyði í spreyformi sem varð til þess að Glasgow stóð á haus í 30 mínútur. Helgi Þór einn af skipuleggjendum ferðarinnar hafði á orði að það þyrfti að brýna fyrir mönnum að ekki mætti reykja inná herbergjunum. En eftir þetta fíaskó virtust allir hafa lært sína lexíu.          

Af fótboltastadium í Skotlandi

Dagur 2

Næsti dagur byrjaði snemma og flestir drifu sig í Primark og keyptu flíkur á spottprís. Eftir vel heppnaða verslunarferð lá leið okkar til Falkirk þar sem við kíktum á geðheilbrigðisúrræði sem nefnist Caledonia Clubhouse en Caledonia Clubhouse er einmitt liðið sem við vorum komnir til að keppa við. Þar geta andlega veikir Skotar spreytt sig á ýmsum verkum. Garðyrkju, vélritun og afgreiðslustörfum, í sjoppu svo eitthvað sé nefnt. Staðurinn er ekki ólíkur því sem ég þekki hjá Klúbbhúsinu Geysi á Íslandi.

Eftir kynningu og chill á klúbbhúsinu fórum við allir tuttugu í mat á Frank & Bennys með nokkrum leikmönnum hins liðsins. Maturinn sló í gegn ásamt Dom og Dunn sem voru leikmenn úr liði Caledonia Clubhouse sem voru hrókar alls fagnaðar. Seinna kom í ljós að þeir hétu Tom og Tam. Tom skrifaði niður mörg íslensk nöfn liðsmanna sem honum fannst stórfurðuleg og eftir að hafa heyrt um hversu fallegar íslenskar konur væru fannst honum tilvalið að kíkja til Íslands.           

Frá fótboltaleik hjá liðunum

Dagur þrjú

Þriðji dagurinn byrjaði ekki ósvipað öðrum degi með morgunverði og hópferð í Primark. Síðan lá leiðin á fótboltavöllinn þar sem við spiluðum fyrsta leikinn okkar. Caledonia Clubhouse komu vel undirbúnir og unnu æfingaleikinn 5-2. Þeir höfðu spilað nokkra leiki áður enda er starfrækt fótboltadeild fyrir um 12 úrræði í geðheilbrigðisþjónustunni í Skotlandi. Draumurinn okkar um að koma sjá og sigra í Skotlandi virtist út um þúfur en það er alltaf morgundagurinn.          

Dagur fjögur

Fjórða daginn héldum við til Falkirk. Menn voru misvel upplagðir og mórals vandræði virtust vera að stynga upp kollinum. Einhverjir mættu seint til ferðarinn og minnstu munaði að við misstum af leiknum en allt gekk þó upp að lokum. Í Falkirk blasti við okkur glæsilegur leikvangur sem rúmar álíka mörg sæti og Laugardalsvöllurinn. Við vorum staðráðnir í að standa okkur betur en í leiknum deginum áður. Fjölgað var í vörninni og ykkar einlægur tók stöðu miðvarðar. Liðið hafði augljóslega grætt mikið á æfingaleiknum deginum áður og F.C. Sækó ætlaði sér stóra hluti. Við mynduðum hring og öskruðum allir í kór „F.C. Sækó, F.C. Sækó, F.C. Sækó”. Við spiluðum boltanum vel. Héldum stöðum og allir lögðu sig 100 % fram. Að leik loknum var staðan 10-3 fyrir okkur. Við höfðum sigrað Loch Ness skrímslið. Allir voru sáttir eftir leikinn. Allir höfðu fengið að njóta sín og hvort lið hafði sigrað einn leik. Ég vildi að ég gæti sagt að þetta hafi ekki snúist um sigur. Að mesti sigurinn hafi snúist um að allir höfðu tekið þátt og blómstrað. En það hefði verið glatað að tapa báðum leikjunum.           

„Life changing event“

Eftir leikinn talaði ég við John sem var í forsvari fyrir Caledonia Clubhouse og hann sagði mér að meðlimir þeirra hefðu beðið eftir þessum leik og talað um Íslendingana sem væru að koma í margar vikur. Hann sagði að margir hefðu einangrað sig mikið vegna sjúkdóms síns og þessi leikur væri, svo ég noti hans orð, „Life changing event“. Á þeim tímapunkti áttaði ég mig á því um hvað þessi ferð snerist. Það skipti ekki máli hver vann, hverjir skoruðu eða hver gat montað sig í lok leiks. Við vorum allir sigurvegarar. Saman deildum við sögum, sigrum og ósigrum og eitt augnablik rættust draumar sem við flestir töldum dauðvona. Áfram draumaliðið F.C. Sækó.

Helgi Valur Ásgeirsson

 

 

Knattspyrnu- og fræðsluferð FC Sækó til Caledonia Clubhouse í Skotlandi í nóvember 2014

Blaðagrein frá  (mbl)

 Knattspyrnufélagið FC Sækó er skipað notendum og starfsmönnum velferðarsviðs og  geðsviðs Landspítalans.Félagið er nýkomið heim úr velheppnaðri keppnisferð til Skotlands, þar sem  leikið var meðal annars á aðalleikvangi Falkirk FC sem tekur 9.000 manns í sæti.

 

Það höfðu ekki margir trú á því að þessi ferð yrði farin enda tók langan tíma að skipuleggja hana. En við fórum á endanum og þetta gekk eins og í lygasögu. Það unnust margir sigrar í þessari ferð, litlir og stórir.“

Þetta segir Helgi Þór Gunnarsson, forstöðumaður í búsetuþjónustu fyrir geðfatlaða hjá velferðarsviði Reykjavíkurborgar, sem skipulagði fyrstu keppnisferð knattspyrnuliðsins FC Sækó, , til útlanda ásamt Bergþóri G. Böðvarssyni, fulltrúa notenda á geðsviði Landspítalans og Marteini og Rúnari og fleiri stafsmönnum Laugaráss meðferðargeðdeild Landspítalans. Farið var til Skotlands og leikið í tvígang gegn sambærilegu liði, frá klúbbhúsinu Caledonia Clubhouse í Falkirk, fyrst í Glasgow og síðan í Falkirk. Um er að ræða samstarfsverkefni Hlutverkaseturs, geðsviðs LSH og velferðarsviðs Reykjavíkur.

Vorið 2012 var Evrópuráðstefna klúbbhúsa haldin á Íslandi af Klúbbnum Geysi og það var þar sem Bergþór heyrði fulltrúa frá Caledonia-klúbbhúsinu í Falkirk greina frá sínu fótboltaverkefni. „Við höfðum rætt um að gera eitthvað til að heilsuefla hópinn enn frekar, til dæmis að fara utan og sjá leik í Meistaradeild Evrópu saman en þarna áttaði ég mig á því að miklu meira spennandi væri að stefna að því að fara utan til að spila fótbolta sjálfir við sambærilegann hóp. Og hvar var betra að byrja en í Skotlandi?“ spyr Bergþór.

Mikil eftirvænting greip um sig

Helgi tók að sér samskipti við Skotana. „Þeim leist strax vel á hugmyndina en eflaust hafa þeir ekki gert ráð fyrir að við myndum nokkurn tíma láta verða af þessu,“ rifjar hann upp.

Bergþór segir þá á hinn bóginn alltaf hafa verið staðráðna í að fara og héldu þeir málinu vakandi næstu mánuðina. Helsti flöskuhálsinn var kostnaður og sendur var póstur á flest stærstu fyrirtæki landsins en viðbrögð voru dræm. Það var ekki fyrr en Bergþóri og Helga var bent á að sækja um styrk hjá verkefninu Evrópa unga fólksins að skriður komst á málið. Styrkbeiðnin var samþykkt í sumar  og skyndilega var kominn grundvöllur fyrir ferðinni.

Því næst setti Helgi sig í samband við Skotana og fundinn var tími sem hentaði hvorum tveggja, 28. október til 2. nóvember. Skotarnir brugðust skjótt við og lögðu drög að dagskrá. „Þegar dagskráin lá fyrir sáu menn að ekki varð aftur snúið. Við værum í raun og veru á leið til Skotlands að keppa í fótbolta,“ segir Bergþór og bætir við að mikil eftirvænting hafi gripið um sig í hópnum.

„Þetta var mikið mál fyrir suma, til dæmis hafði einn í hópnum aldrei farið í millilandaflug. Maður gleymir því stundum að það hafa ekki allir sömu möguleika á að ferðast,“ segir Helgi.

Græja þurfti búninga og leituðu Bergþór og Helgi til Knattspyrnusambands Íslands sem brást ljúfmannlega við beiðni þeirra. Lagði vitaskuld til landsliðsbúninga enda um millilandaglímu að ræða. Áður hafði KSÍ styrkt FC Sækó um tíu knetti. Síðan voru fengnir  utanyfirbúningar, þannig að heildarbragur yrði á hópnum á ferðalaginu.

Flogið var til Edinborgar en þaðan fór hópurinn, 21 maður, akandi til Glasgow. Fyrri leikur ferðarinnar – og um leið fyrsti opinberi kappleikur FC Sækó – fór fram á stóru æfingasvæði í Glasgow en lið Caledonia-klúbbhússins kom þangað. „Fyrirfram gerðum við ráð fyrir að leika á sparkvöllum en þetta var fínasti völlur í fullri stærð,“ segir Bergþór. Þá var ekki um annað að ræða en gyrða sig í brók. Þrátt fyrir að hafa enga reynslu af leikjum á stórum velli stóðu Sækó-liðar ágætlega í Skotunum. Lutu þó í gras á endanum, 5:2. Leiknar voru 2×25 mínútur. 

Seinni leikurinn fór fram í Falkirk daginn eftir og þar var sannarlega ekki í kot vísað. Leikurinn fór fram á aðalleikvangi Falkirk FC, sem leikur í næstefstu deild í Skotlandi. Velli sem tekur tæplega 9.000 manns í sæti.

„Falkirk er mjög fjölskylduvænn klúbbur og ýmsir aðilar hafa aðgang að vellinum, þeirra á meðal Caledonia-klúbbhúsið sem er með fastan æfingatíma þar á föstudögum. Vegna þessarar stefnu er mikið álag á vellinum og þetta væri auðvitað ekki hægt nema vera með gervigras. Það er nýjasta kynslóð gervigrass sem er orðið svo fullkomið að maður gerir sér varla grein fyrir því að grasið er ekki ekta,“ segir Helgi.

Ofsalega stór stund

 

Sækó-liðar fóru vel yfir taktík milli leikja og vel hljóta menn að hafa sofið um nóttina því gestirnir gersigruðu heimamenn í seinni leiknum, 10:3.

Bergþór og Helgi viðurkenna að vísu að Skotarnir hafi hvílt einhverja leikmenn í seinni leiknum – en það skyggði ekki með nokkru móti á afrekið. Fyrsti sigur FC Sækó var í höfn.

„Þetta var ofsalega stór stund og ekki spillti völlurinn fyrir,“ segir Helgi dreyminn. 

Bergþór segir ótrúlega létt hafa verið yfir hópnum í ferðinni og menn sem alla jafna eiga erfitt með að vakna á morgnana hafi sprottið upp fyrir allar aldir klárir í slaginn.

 „Þetta var heilsuefling í svo mörgum skilningi,“ segir hann.

Hópurinn vakti mikla athygli á götum Falkirk og Glasgow og margir spurðu hverjir þeir væru og hverra erinda. Sækó-liðar voru hvergi bangnir. „Við kynntum okkur bara sem landslið geðsjúklinga frá Íslandi – sem við sannarlega erum,“ segir Bergþór.

Sækó-liðar brugðu sér að sjálfsögðu á völlinn, sáu stórlið Celtic vinna 1:0-sigur á Inverness á Celtic Park í Glasgow. Það var mikil upplifun.

Bergþór og Helgi eru á einu máli um að ferðin hafi heppnast frábærlega. „Menn eru ekki komnir niður úr skýjunum ennþá. Þetta er líka svo miklu meira en bara fótbolti. Hjá sumum er það eina virknin að mæta í fótbolta og það getur verið stórt fyrir suma að fara úr húsi. Hvað þá að fara til útlanda að spila,“ segir Helgi og Bergþór bætir við að hópurinn muni lifa á þessu lengi. „Þetta fótboltaverkefni okkar snýst um að auka lífsgæði manna og það hefur svo sannarlega tekist,“ segir hann.

Helgi segir ótrúlega gaman að taka þátt í að veita mönnum svona mikla gleði. „Og þá er ég ekki bara að tala um okkar hóp. Það fór ekkert á milli mála að þetta gerði heilmikið fyrir Skotana líka. Þeir höfðu mikið yndi af því að kynnast fólki frá öðru landi og lýstu yfir miklum áhuga á að sækja okkur heim í nálægri framtíð. Vonandi tekst þeim að skipuleggja slíka ferð svo við getum launað þeim greiðann.“

Helgi og Bergþór hugsa raunar ennþá stærra. Þeir komust að því ytra að skoska knattspyrnusambandið starfrækir í samvinnu við klúbbhúsin svonefnda „geðdeild“, það er knattspyrnudeild þar sem geðfatlaðir reyna með sér. „Við höfum áhuga á að koma einhverju sambærilegu á fót, helst í samstarfi við KSÍ. Ef ekki deildarkeppni þá alla vega móti sem haldið yrði reglulega,“ segir Bergþór.

Ekki nóg með það. Þeir hafa líka milliríkjamót í huga. Helgi spyr: „Hvers vegna höldum við ekki Evrópumót fyrir þennan hóp notenda hér á Íslandi?“

Já, hvers vegna ekki?

 

Rammi um liðið:

Hugmyndin að verkefninu kom í gegnum NsN verkefni Hlutverkaseturs sem Bergþór G. Böðvarsson var að vinna í árið 2011. Hann, ásamt starfsmanni eins búsetukjarna velferðarsviðs Reykjavíkur fannst upplagt að setja á laggirnar knattspyrnuhóp innan geð- og velferðarkerfisins. Helgi Þór Gunnarsson kom fljótlega til liðs við hann og 21. 11. 2011 var fyrsti fótboltatími félagsins í Íþróttahúsi fatlaðra í Hátúni, þar sem hópurinn hefur spilað einu sinni í viku síðan þá.

Velferðarsvið Reykjavíkurborgar, Hlutverkasetur og geðsviðs LSH stóðu til að byrja með straum af kostnaði vegna leigu á salnum en Íþrótta- og tómstundaráð tók síðan við keflinu.

Átján manns mættu í fyrsta tímann, fjórtán til að spila og fjórir til að sjá um hvatninguna. Allar götur síðan hafa tímarnir verið vel sóttir en þeir standa ekki bara notendum og starfsmönnum geð- og velferðarsviðs opnir heldur líka öllum sem áhuga hafa á málaflokknum. „Menn þurfa ekki að vera með geðgreiningu til að vera gjaldgengir,“ segir Bergþór. Þannig létu Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Stefán Eiríksson, sviðsstjóri velferðarsviðs, sjá sig á æfingu daginn áður en hópurinn fór utan til Skotlands. „Stefán hefur sýnt knattspyrnuiðkun okkar mikinn áhuga og hafði til dæmis samband við mig rétt eftir að við komum að utan til að spyrja hvernig okkur hefði gengið,“ segir Helgi og bætir við að mikilvægt sé að finna fyrir slíkum stuðningi ráðamanna.

Frá sumrinu 2012 hafa æfingar líka farið fram á grasvellinum við Klepp en Bergþór og Helgi segja hann alls ekki nógu góðan. „Völlurinn er ósléttur og getur beinlínis verið hættulegur. Það er draumur okkar og margra sem hafa komið að þessu um að komið verði upp sparkvelli við Klepp sem hægt verði að nota allan ársins hring.“